Book now Powered by Booking.com
"Very good guesthouse, good bedrooms, very clean, excel-lent restaurant and very good breakfast."
hostelbookers.com
 "The best place we stayed in during our whole trip."
hostelbookers.com

Lake Hraunsvatn

Hraunsvatn og Hraunstapar

 Best er að leggja upp frá Gistihúsinu að Engimýri eftir góða hressingu þar og ganga yfir brúna á Öxnadalsánni sem er beint vestur af gistihúsinu (270 metrar yfir sjávarmáli) og framhjá bænum Hálsi og taka stefnuna þar upp að Hraunsvatni ( 500 m yfir sjó) er þá gengið upp slóða á melnum norðan við bæjarlækinn og norðan girðingar sem liggur þarna uppeftir. Hliðarspor er að skreppa suður að Þverbrekkuvatni , litlu vatni sem er spölkorn sunnar.

Það tekur innan við klukkutíma að ganga frá Engimýri að norðurenda Hraunsvatns þar sem Hraunsáin rennur úr vatninu, en þar er gott að staldra aðeins við og njóta náttúrunnar. Talsvert er af fiski í vatninu (einnig í Þverbrekkuvatni). Hraunsvatn er talsvert stórt, um 500 m breitt, 1500 m langt og 50-60 m djúpt og hefur myndast þegar berghlaup úr Drangafjalli stíflaði affall Vasdalsins. Hraunsá er að því leyti sérkennileg að hún rennur aðeins skamman spöl ofan jarðar en hverfur þá ofan í grjótið og kemur ekki aftur í ljós fyrr en rétt áður en hún fellur í Öxnadalsá. Gengu sagnir um að í ánni væri hrökkáll , skrímsli sem skar á hásinar hrossa og manna. Kann þetta að eiga þá skýringu að í ánni er mikið af ósorfnu grjóti sem gat sært fætur hrossa. Ýmsar furðusagnir eru tengdar Hraunsvatni og var fyrrum hald manna að undirgangur væri úr vatninu til sjávar og þannig komist fiskur í það og því gætti þar flóðs og fjöru.

Þar sáust líka torkennilegir fuglar sem lifðu undir vatnsborðinu og gripu í fætur annara fugla og drógu þá niður í djúpið, og héldu þá fuglalífi að mestu í skefjum.

Vatnahestur var fyrrum álitin í vatninu og gat valdið flóði og fjöru með brölti sínu og þá sérstaklega ef hann stíflaði undirgöngin til sjávar.

Vel má ganga umhverfis vatnið, en þá verða á vegi manns bæði Vatnsdalsáin sem fellur í suðurenda vatnsins og Hraunsáin sem fellur norður úr því en þær eru flestum lítil fyrirstaða. Er gengið er til baka aftur má t.d. ganga niður með Hraunsánni og jafnvel rölta um ævintýraheima Hraunstapana. Frá Engimýri umhverfis Hraunsvatnið og með Hraunsánni til baka að Engimýri er ca 3 klukkustundir.

Vilji menn koma annarsstaðar niður má ganga að bænum Hrauni (Fæðingarstað Jónasar Hallgrímssonar), er þá skemmtilegast að fara vestan megin við Hraunsánna upp við vatnið og fylgja henni upp að Drangafjalli, og er þá komið í lægð sem liggur norður með fjallinu og nefnist Drangabollar. Lægðinni fylgja menn til norðurs uns hún beygir niður að Hrauni , gæti sú ganga frá Engimýri kringum vatnið, norður með Drangafjalli og niður að Hrauni tekið ca. 4 klukkustundir.

Báðar þessar leiðir er farið um í ævintýralegu umhverfi með tígullegt Drangafjall og Hraundranga yfirgnæfandi, þetta er auðveld leið og fær öllu frísku fólki sem og gangandi börnum.